Bréfasprengja sprakk í London

Sjónvarpsmynd frá Sky News frá Victoria Street í London í …
Sjónvarpsmynd frá Sky News frá Victoria Street í London í dag.

Bréfasprengja sprakk á skrifstofu við Victoria Street í London í dag. Fram kemur á fréttavef Sky News að sprengjan hafi sprungið klukkan 9:40. Skrifstofustarfsmaður særðist minniháttar þegar sprengjan sprakk, en talið er að hann hafi opnað bréfið.

Búið er að girða Victoria Street frá Westminster Abbey að höfuðstöðvum Scotland Yard. Þá er búið að koma í veg fyrir að almenningur geti farið í bygginguna þar sem atvikið átti sér stað.

Talið er að pakkinn hafi verið í skrifstofu sem var beint fyrir ofan nokkrar verslanir.

Nokkrir sjúkra-, slökkviliðs- og lögreglubílar eru fyrir utan bygginguna. Þá hefur lögregla farið með lögregluhunda inn í húsið.

Talsmaður slökkviliðsins segir að bréfasprengja hafi sprungið en þetta vill lögregla hinsvegar ekki staðfesta.

Að sögn sprengjusérfræðings sem Sky News ræddi við er lítið mál að búa til bréfasprengju. Hann segir slíkar sprengjur ekki mikið notaðar en að þær séu á meðal verkfæra hryðjuverkamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka