„Gúrkan“ seld fyrir 600 milljónir punda

„Gúrkan“ setur mikinn svip á miðborg Lundúna.
„Gúrkan“ setur mikinn svip á miðborg Lundúna.

Tryggingarrisinn Swiss Re hefur selt skýjakljúfinn sérstæða „Gúrkuna“ (e. Gherkin) sem setur stóran svip á miðborg Lundúna, en háhýsið er í hjarta fjármálahverfisins - City of London.

Þýska fasteignarfélagið IVG Immobilien og breska fjárfestingarfélagið Evans Randall hafa keypt bygginguna fyrir 600 milljónir punda, sem jafngildir rúmum 80 milljörðum kr.

Swiss Re segist ætla að leigja skrifstofur í húsnæðinu til ársins 2031, en rúmlega helmingur skrifstofurýmisins í „Gúrkunni“ heyrir undir starfssemi tryggingarfyrirtækisins.

„Gúrkan“ var byggð árið 2003 og framkvæmdakostnaður hljóðaði upp á 138 milljónir punda, og setur hún sterkan svip á heildarmynd miðborgarinnar.

Opinberlega gengur húsnæðið undir nafninu 30 St Mary Axe og það var byggt á sama stað og Baltic Exhange kauphöllin var áður í hjarta fjármálahverfisins. Nafnið „Gúrkan“ hefur hinsvegar fest sig við húsið þar sem útlit þess minnir óneitanlega á grænmetið.

Foster lávarður hannaði bygginguna sem nýtir dagsbirtuna til fulls auk náttúrulegrar loftræstingar. Af þessum sökum notar þarfnast byggingin helmingi minni orku en sambærileg háhýsi.

Hver hæð hallar um fimm gráður frá þeirri síðustu og toppstykki háhýsisins er eina bogadregna glerið í því.

Árið 2004 hlaut byggingin Stirling-verðlaun Konunglegu bresku arkitektastofnunarinnar, en í dómnefnd sagði að húsið væri bæði „tilkomumikið og glæsilegt“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert