Krókódíll truflaði skólasund barna

Þessi föngulegi krókódíll býr í Adelaide-á um 60 km suðaustur …
Þessi föngulegi krókódíll býr í Adelaide-á um 60 km suðaustur af Darwin í Ástralíu. AP

Hópur ástralskra skólabarna slapp með skrekkinn þegar þau mættu í sundtíma í borginni Darwin í morgun, en þau ráku upp stór augu þegar þau sáu að krókódíll var búinn að koma sér fyrir í lauginni.

Börnin tóku eftir einhverju dökkleitu í einu horni laugarinnar sem tók síðan á rás yfir grasflöt og fór inn í skólabygginguna. Börnin æptu og skræktu þegar þau áttuðu sig að skuggalega veran væri krókódíll.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að krókódíllinn hafi verið 1,6 metra langur og að hann hafi stungið sér á bólakaf í laugina og verið þar í um tvær klukkustundir þar til krókódílafangara tókst að ná honum. Dýrinu var síðan lyft upp úr lauginni og farið með hann á krókódílabúgarð í nágrenninu.

Talið er að skriðdýrið hafi verið að forða sér frá ólgusjónum, klifrað upp á nærliggjandi klett í leit að lygnu vatni.

Önnur kenning er á þá leið að um hrekk hafi verið að ræða og krókódílnum hafi verið komið viljandi fyrir í lauginni.

Nokkuð hefur borið á flóðum á norðurhluta Ástralíu og hafa þau leitt til þess að talsvert hefur sést til krókódíla.

Einn sást synda fram á lögregluvegatálma nærri bænum Ingham sem er staðsettur norðaustarlega í Queensland. Krókódílar geta falið sig í 30 cm grunnu vatni og því getur fólk verið í hættu sem stendur við vegi sem flætt hefur yfir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert