Þýskur dómstóll hefur hafnað kröfu um að fyrrum félagi í SS sveitum nasista verði framseldur til Danmerkur en maðurinn, sem fæddist í Danmörku en er þýskur ríkisborgari, er eftirlýstur í Danmörku fyrir morð á blaðamanni árið 1943.
Søren Kam, sem er 84 ára að aldri, var handtekinn á heimili sínu í Bæjaralandi í september á síðasta ári eftir að alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur honum. Kam var sleppt úr haldi í október meðan beðið var dómsúrskurðar um framsal hans.
Héraðsdómur í Münhcen komst í dag að þeirri niðurstöðu, að gögn sem styddu morðákæru væru ekki næg og samkvæmt þýskum lögum væri hugsanleg ákæra fyrir manndráp fyrnd.
Kam var ásamt fleirum grunaður um að hafa skotið danska ritstjórann Carl Henrik Clemmensen í Lyngby í nágrenni Kaupmannahafnar. Clemmensen var rænt 30. ágúst 1943 og hann fannst látinn daginn eftir. Kam hefur viðurkennt að hann var einn þriggja danskra SS-manna sem skutu á Clemmensen en hann sagðist ekki hafa skotið fyrr en eftir að Clemmensen var látinn. Þýskir saksóknarar felldu niður morðákæru á hendur Kam árið 1971 vegna skorts á sönnunargögnum.