Átök um ástir geimfara

Lisa Nowak og William Oefelein.
Lisa Nowak og William Oefelein. AP

Bandarísk kona, sem var í áhöfn geimferjunnar Discovery þegar hún fór til alþjóðlegu geimstöðvarinnar í júlí á síðasta ári, hefur verið ákærð fyrir mannránstilraun og líkamsárás. Að sögn fjölmiðla reyndi konan að ræna annarri konu, sem hún taldi vera keppinaut sinn um ástir annars geimfara.

Fram kemur á fréttavef BBC, að Lisa Nowak, 43 ára, ók frá Texas til Flórída og réðist þar á Colleen Shipman. Í handtökuskjölum kemur fram, að Nowak hafi ekið frá heimili sínu í Houston til alþjóðaflugvallarins, 1500 km vegalengd, og var m.a. með bleyju til að þurfa ekki að stöðva á leiðinni. Á flugvellinum setti Nowak m.a. á sig hárkollu til að dulbúa sig. Hún fylgdi Shipman eftir og réðist á hana á bílastæði. Þegar lögregla handtók konuna var hún með piparúða, loftbyssu, stálkylfu og hníf í fórum sínum.

Að sögn fjölmiðla snérist ágreiningur kvennanna um William Oefelein, sem var flugstjóri í ferð Discovery til geimstöðvarinnar í desember sl. Í yfirheyrslum hjá lögreglu sagði Nowak að samband þeirra Oefeleins væri ekki rómantískt í eiginlegum skilningi heldur væru þau vinnufélagar. Hún hefði hins vegar viljað fá Shipman til að ræða við sig um samband hennar við Oefelein.

Nowak á yfir höfði sér langa fangelsisvist verði hún fundin sek um mannránstilraun. Samkvæmt æviágripi á vef bandarísku geimferðarstofnunarinnar er Nowak gift og þriggja barna móðir. Oefelein er einhleypur en á tvö börn.

Mynd sem lögreglan í Orangesýslu sendi frá sér og sýnir …
Mynd sem lögreglan í Orangesýslu sendi frá sér og sýnir Lisu Nowak eftir handtökuna. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert