Forsætisráðherra Bretlands, Tony Blair, hefur loks staðfest að Gordon Brown fjármálaráðherra muni taka við af honum þegar hann lætur af embætti. Breskir fjölmiðlar hafa þrýst mikið á Blair að nefna eftirmann sinn. Blair lét þetta loks flakka í fyrirspurnatíma nefndar breska þingsins.
Blair ætlar að láta af embætti á næstu mánuðum. Mikið hefur verið fjallað einnig í breskum fjölmiðlum um meintar deilur milli stuðningsmanna Blair og Brown um það hvenær Blair beri að víkja. Brown nýtur stuðnings meirihluta breska Verkamannaflokksins í embætti forsætisráðherra. Einn flokksmanna, John McDonnel, sagði í fyrra að hann myndi keppast við Brown um embættið. Sky segir frá þessu.