Bandaríska geimfaranum Lisa Marie Nowak var í dag sleppt úr haldi lögreglu gegn tryggingu en Nowak er sökuð um að hafa ráðist á verkfræðing bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA með piparúða og reynt að ræna henni á bílastæði í Orlando í Flórída. Í úrskurði dómarans er þó tekið fram að hún verði að ganga með GPS-staðsetningartæki og að hún megi ekki hafa samband við verkfræðinginn Colleen Shipman. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Í úrskurðinum er Nowak bannað að hafa nokkur samskipti við Shipman, sem hún er talin hafa álitið keppinaut sinn í ástum, og tekið er fram að hún megi ekki einu sinni senda henni blóm eða biðjast afsökunar á árásinni. Steve Lindsey, yfirmaður Nowak hjá NASA bar við réttarhöldin að engin fagleg þörf væri á því að Nowak ætti samskipti við Shipman og að GPS-staðsetningartæki myndi ekki standa í vegi fyrir störfum hennar.
Nowak, sem fór í sína fyrstu geimferð með geimferjunni Discovery í júlí á síðasta ári, og Shipman eru báðar sagðar hafa átt í ástarsambandi við flugstjórann Bill Oefelein. Nowak, sem er gift þriggja barna móðir, er sögð hafa vitað, að Shipman ætlaði að fljúga frá Houston til Orlando í gær og ákvað að verða á undan henni. Ók hún milli borganna án hvíldar í fjórtán tíma, að sögn til að spyrja Shipman um samband hennar við Oefelein og var hún með geimfarableyju á leiðinni til að þurfa ekki að stoppa.
Er til Orlando kom sat Nowak fyrir Shipman á flugvelli borgarinnar og elti hana að bíl hennar. Hún fékk síðan Shipman til að opna gluggann á bíl sínum og sprautaði á hana piparúða. Shipman náði hins vegar að aka á brott og gera öryggisvörðum viðvart. Skömmu síðar fann lögregla Nowak á strætisvagnastöð þar sem hún er sögð hafa reynt að losa sig við hárkollu og byssu í ruslatunnu. Í handtösku hennar fannst einnig kylfa, hnífur og stórir plastpokar. Þá fundust tölfuskeyti frá Shipman til Oefelein í bíl hennar, ástarbréf frá henni til Oefelein og upplýsingar um staðsetningu heimilis Shipman í Flórída.
Oefelein, sem var flugstjóri Discovery í síðustu geimferð hennar, hefur ekki viljað tjá sig um málið í dag en talsmaður NASA segir stöðu Nowak sem geimfara vera óbreytta og að tveir geimfarar hafi verið sendir til Flórída í dag til að hitta hana.