Yuval Diskin, yfirmaður ísraelsku öryggislögreglunnar Shin Bet, hefur varað Ísraela við því að grípa til hernaðaraðgerða gegn Palestínumönnum á Gasasvæðinu á meðan valdabarátta liðsmanna Hamas-samtakanna og Fatah-hreyfingarinnar stendur sem hæst. Æðstu leiðtogar samtakanna tveggja munu hittast í Mecca í Sádi-Arabíu í dag og segjast liðsmenn beggja hreyfinga bjartsýnir á að samkomulag náist á fundinum um myndun þjóðstjórnar á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Ísraelsher er sagður undirbúa umfangsmiklar hernaðaraðgerðir á Gasasvæðinu til að vera við öllu búinn nái fulltrúar Hamas og Fatah ekki samkomulagi. Diskin leggur hins vegar áherslu á mikilvægi þess að valdabarátta stríðandi fylkinga Palestínumanna fái að hafa sinn gang. „Það geta komið upp þær aðstæður að við þurfum að grípa til aðgerða hvort sem okkur líkar það betur eða verr, en við verðum að taka valdabaráttu Fatah og Hamas á Gasasvæðinu með í reikninginn,” segir hann. „Ég tel að hvernig sem málin þróast komi það sér betur fyrir okkur að hafa þar valdahafa sem halda niðri íslamskri öfgahyggju. Viljum við ekki eyðileggja allt ættum við að halda að okkur höndunum í bili.”
Haldi áhrif Hamas-samtakanna hins vegar áfram að aukast á palestínsku sjálfstjórnarsvæðunum segir hann Ísraela þó verða að íhuga stórfelldar hernaðaraðgerðir. Þá varar hann við því að hrynji öll stjórnsýsla á svæðunum sé hætta á því að ættbálkakerfi komist þar á og að slíkt geti reynst mjög hættulegt þar ættbálkasamfélög byggi m.a. á þörf fólks til að hefna ættingja sinna og þess óréttis sem því finnst ættbálkurinn hafa verið beittur. Þá sé tryggð almennings við ættbálk sinn sé mun meiri en tryggð fólks við fylkingar eða stjórnmálaflokka og slíkt geti staðið í vegi fyrir friðarsamningum við Ísraela jafnvel þótt leiðtogar Fatah og Hamas verði þá reiðubúnir til að fallast á þá.