Tveir særðust eftir að „póstsending“ sprakk á skrifstofu fyrirtækis í Workingham, í Berkshire í Englandi. Þetta kemur fram á fréttavef Sky News. Þetta gerist degi eftir að bréfasprengja sprakk á skrifstofu í London.
Að sögn lögreglu átti atvikið sér stað við Oaklands Business Centre og tveir særðust minniháttar í sprengingunni.
Byggingin var tæmd og hún girt af.
Lögreglan segist gera sér grein fyrir atvikinu í London en segir að það sé of snemmt að segja nokkuð til um það hvort sprengjuárásin í gær tengist þessari í dag.