Tók vitlausa rútu og tafðist um 25 ár

Tailensk kona á áttræðisaldri, sem saknað hefur verið í 25 ár, er komin í leitirnar en konan tapaði áttum er hún tók í tvígang vitlausa rútu og hafnaði í hinum enda landsins fyrir hálfum þriðja áratug. Konan, Jaeyaena Beuraheng sem er 76 ára, á átta börn og töldu þau hana hafa orðið fyrir lest á ferðalaginu. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Jaeyaena fór frá heimabæ sínum í suðurhluta Taílands og var ferð hennar heitið suður ábóginn til bæjarins Narathiwat. Fyrir misskilning fór hún hins vegar upp í rútuna til Bangkok og ók með henni 1.200 km til norðurs. Þegar til Bangkok kom eyddi hún öllum þeim fjármunum sem hún hafði meðferðis til að kaupa miða aftur heim en aftur tók hún vitlausa rútu og ók í þetta sinn 700 km til viðbótar norður á bóginn til borgarinnar Chaing Mai.

Konan er múslími og talar ekki taílensku og þar sem hún átti ekki í nein hús að venda í Chaing Mai bjó hún þar á götunni í fimm ár og betlaði sér til matar. Að fimm árum liðnum var hún handtekin og flutt á heimili fyrir heimilislausa. Þar taldi starfsfólkið hana vera heyrnarlausa og það var ekki fyrr en þrír námsmenn frá Narathiwat komu í skýlið sem hið rétta kom í ljós. Konan þekkti þá klæðaburð og tungumál þeirra og gaf sig á tali við þá. Hún hefur nú verið flutt heim og er hún í umsjón barna sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka