Bandaríkjastjórn sendi fjóra milljarða Bandaríkjadala í reiðufé til Íraks um það leyti er Írakar tóku við stjórn landsins, en peningarnar voru geymdir í fjárhirslum Seðlabanka Bandaríkjanna. Þeir voru fluttir á vörubrettum með herflugvélum, að sögn bandarískra þingmanna.
Peningarnir voru að hluta tekjur af olíuútflutningi Íraka og voru í vörslu Bandaríkjamanna en einnig afgangsfé verkefnis Sameinuðu þjóðanna, sem heimilaði Írökum að selja olíu í skiptum fyrir matvæli, lyf og fleira í þágu þjóðarinnar. Þá var hluti upphæðarinnar úr frystum sjóðum ríkisstjórnar Saddams Hussein.
Peningasendingin var 363 tonn að þyngd og er sú stærsta sem nokkru sinni hefur verið flogið frá Bandaríkjunum. Henry Waxman, þingmaður demókrata í fulltrúadeild, spurði á þingi hverjum hefði dottið í hug að senda 363 tonn af peningaseðlum til átakasvæðis. Hann svaraði eigin spurningu, jú, ríkisstjórn Bandaríkjanna. Þetta kom fram við yfirferð þingnefndar vegna mögulegrar sóunar, peningasvindls og misnotkunar á fé í Írak.
Þann 12. desember 2003 var 1,5 milljarður sendur til Íraks, sem þá var stærsta peningasending úr fjárhirslum Seðlabankans frá upphafi. Ári síðar voru 2,4 milljarðar sendir og 1,6 milljarðar þremur dögum eftir að sú sending fór í loftið. Írakar tóku við stjórn landsins skömmu eftir það. Peningarnir voru sendir að beiðni fjármálaráðherra Íraks, að sögn fyrrum yfirmanns bráðabirgðastjórnarinnar í Írak, Paul Bremer. Reuters segir frá þessu.