Lögsækja má Wal-Mart fyrir kynjamismunun

Betty Dukes (t.h.), málshefjandi í málinu gegn Wal Mart ásamt …
Betty Dukes (t.h.), málshefjandi í málinu gegn Wal Mart ásamt öðrum starfsmönnum sem lögsótt hafa verslanakeðjuna, árið 2003. AP

Áfrýjunardómstóll í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að hefja megi málsókn gegn verslanakeðjunni Wal-Mart, vegna kynjamismununar. Fyrirtækið er sagt hafa brotið á rétti allt að 1,5 milljónar kvenna sem hjá því vinna eða unnu, með því að greiða þeim lægri laun og veita þeim ekki stöðuhækkanir sem karlkyns starfsmenn fengu.

Wal-Mart er það einkafyrirtæki heims sem flesta starfsmenn hefur og stærsta verslanakeðja heims. Með úrskurðinum nú, sem kveðinn var upp í gær, er fyrri dómur staðfestur frá árinu 2004. Wal-Mart gæti þurft að greiða milljarða dollara í bætur til núverandi og fyrrverandi starfsmanna sinna, verði stjórn þess fundin sek um þessi brot.

Lögmaður Wal-Mart, Theodore Boutrous Jr, segir ferlið allt eiga eftir að taka langan tíma en er bjartsýnn á að málinu verði vísað frá. Verslanir Wal-Mart séu reknar sem einkafyrirtæki og því ekki um eina stefnu í launamálum að ræða og auk þess hafi lögmenn ekki fundið þennan launamun og mismunun sem fyrirtækið hefur verið kært fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert