Bandarískir og íraskir hermenn héldu inn í alræmt hverfi Bagdad í morgun, Adhamiyah, þar sem uppreisnarmenn súnníta eru sagðir fjölmennir og handtóku á annan tug manna og lögðu hald á vopn. Aðgerðin er sögð liður í nýju átaki sem róa á átök milli trúarhópa í borginni og brjóta uppreisnina á bak aftur.
Um 2.000 bandarískir hermenn voru sendir í hverfið og hundruð íraskra hermanna, en aðgerðin ber nafnið Arrowhead Strike Six. Aðstoðarmaður forsætisráðherra landsins neitar því þó að látið hafi verið til skarar skríða en háttsettur maður innan bandaríska hersins í Írak staðfestir aðgerðina. Íraska dagblaðið Al-Mada segir einnig að ráðist hafi verið til atlögu í hverfið beggja megin árinnar Tígris.