Þingmaður í New York hefur sett fram lagafrumvarp sem mun gera notkun iPod og annarra vasadiskóa ólöglega meðan farið er yfir götur í borginni. Það er þingmaðurinn Carl Kruger sem hefur sett fram frumvarpið og vill að framvegis varði það 100 dala sekt, eða sem svara tæpum 7000 krónum að nota truflandi rafmagnstæki þegar farið er yfir götu.
Kruger bendir á að 21 árs karlmaður hafi látist í haust þegar hann steig út af gangstétt, niðursokkinn í að hlusta á tónlist, og að 23 ára karl hafi látist í umferðarslysi í janúar sl. meðan hann hlustaði á iPod-spilara.
Reyndar er Kruger ekki einungis í herferð gegn vasadiskóum, heldur vill hann einnig banna notkun tölvuleikja, farsíma og lófatölva og hvers kyns rafmagnstækja sem hindra notendur í að fylgjast með umhverfi sínu.