Bandarískur þingmaður: Herinn óttast lesbíur meira en hryðjuverkamenn

Gary Ackerman ræðir við Karnit Goldwasser, eiginkonu ísraelsks hermanns sem …
Gary Ackerman ræðir við Karnit Goldwasser, eiginkonu ísraelsks hermanns sem er í haldi herskárra Palestínumanna, á blaðamannafundi í Washington nýlega. Reuters

Bandarískur þingmaður henti á fundi utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings gaman að tregðu Bandaríkjahers við að leyfa samkynhneigðu fólki að þjóna í hernum. Sagði þingmaðurinn, Gary Ackerman, að herinn virðist vera hræddari við samkynhneigt fólk en hryðjuverkamenn og ef þeir síðarnefndu kæmust að þessu myndu þeir koma á fót herdeild af lesbíum til að reka Bandaríkjaher út úr Bagdad.

Condoleezza Rice, utanríkisráherra Bandaríkjanna, mætti á fund utanríkismálanefndarinnar þar sem fjallað var um stöðu mála í Írak. Ackerman, sem er þingmaður demókrata í New York, kvartaði á fundinum yfir því, að herinn hefði rekið túlka úr starfi eftir að í ljós kom að þeir voru samkynhneigðir.

„Af einhverjum ástæðum virðist herinn vera hræddari við samkynhneigt fólk en við hryðjuverkamenn. Hann skekur vopnin gegn hryðjuverkamönnum en ef hryðjuverkamenn kæmust á snoðir um þetta myndu þeir fá herflokk lesbía til að reka okkur út úr Bagdad," sagði Ackerman.

Þingmaðurinn studdi innrásina í Írak árið 2002 en er nú alfarið andvígur hernaðaraðgerðunum í Írak. Hann hélt áfram og með tilvísun til andstöðu Bush, Bandaríkjaforseta, við hjónabönd samkynhneigðra stakk hann upp á að utanríkisráðuneytið myndi ráða tugi burtrekinna fyrrum hertúlka.

„Getum við gift þessi tvö - kannski er það ekki rétta orðið - gætum við komið á einhverju sambandi á milli þessara tveggja mála?" spurði Ackerman og uppskar hlátur á áhorfendabekkjunum.

Rice lét ekki slá sig út af laginu og sagðist myndu kanna málið. Hún sagði að túlkum í ráðuneytinu, sem túlka af arabísku og farsi og öðrum slíkum málum, hefði fjölgað mikið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert