Frestur Kristjaníubúa til að svara tillögum stjórnvalda um breytt fyrirkomulag í fríríkinu rennur út í dag, en yfirvöld í Kristjaníu hafa hins vegar beðið um frekari frest til að fara yfir tilboðið.
Segja Kristjaníubúar tilboðið flókið og að óskað hafi verið eftir skýringum á ýmsum atriðum og að vonast sé til þess að stjórnvöld hafi skilning á því að ekki verði hlaupið að slíkri ákvörðun þar sem hún hafi miklar afleiðingar í för með sér, hvort sem svarið verður já eða nei.
Dönsk stjórnvöld lögðu fram tilboð fyrir mánuði sínum sem felur í sér m.a. miklar nýbyggingar á svæðinu, endurbætur á gömlum húsum, friðun bygginga og niðurrif annarra húsa. Þá verður íbúum gert að standa skil á gjöldum líkt og aðrir borgarbúar og greiða leigu.
Í tilboðinu er þó reynt að tryggja að rúm verði fyrir það óhefðbundna lífsmynstur sem Kristjaníubúar eru þekktir fyrir, og verða m.a. engar íbúðir seldar á svæðinu, heldur leigðar út.