Fyrrverandi aðstoðarforseti Bandaríkjanna, Al Gore, ætlar ekki að bjóða sig fram til embættis forseta á næsta ári en hann vill ekki gefa upp hvort hann muni bjóða sig fram síðar á lífsleiðinni.
Gore var frambjóðandi demókrata í forsetakosningunum árið 2000 gegn George W. Bush. Mjög mjótt var á mununum og skiptu þar nokkur atkvæði á Flórída lykilmáli eins og frægt er orðið.
Þetta kom fram í máli Gore þegar hann kynnti ásamt Richard Branson, eiganda Virgin, ný umhverfisverðlaun. Al Gore hefur undanfarið einbeitt sér að loftslagsmálum. Ber þar hæst heimildarmynd hans „An Inconvenient Truth", sem tilnefnd er til Óskarsverðlauna í ár.