Tveir liðsmenn Sea Shepherd-samtakanna ollu lítilsháttar skemmdum á japönsku hvalveiðiskipi með sýru og reyksprengju í gær. Hlutu tveir japanskir hvalveiðimenn lítilsháttar meiðsl. Hvalskipið hafði skömmu áður tekið þátt í leit að mönnunum tveim, að beiðni Sea Shepherd.
Atburðurinn átti sér stað við Suðurskautslandið þar sem skip Sea Shepherd, Farley Mowat, hafði elt uppi japönsk hvalskip. Mennirnir tveir, Ástrali og Bandaríkjamaður, voru á gúmmíbát, en liðsmenn samtakanna höfðu farið á þrem slíkum bátum að hvalskipinu Nisshin Maru.
Paul Watson, sem var skipstjóri á Farley Mowat, tjáði AP að mennirnir tveir hefðu villst vegna þoku og dimmrar úrkomu eftir að bátur þeirra bilaði. Þeir fundust heilir á húfi eftir sjö tíma leit.
Síðan hóf Sea Shepherd aftur að eltast við hvalskipið og hentu flösku með smjörsýru um borð. Tveir hvalfangarar meiddust í andliti þegar flaskan splundraðist á dekkinu, og annar fékk sýru í augun. Japanska sjónvarpið sagði að Sea Shepherd-liðarnir hafi einnig hent reyksprengju um borð.