Umhverfisverndarsamtökin Norges Naturvernforbund hvetur landsmenn til að afþakka nýja símaskrá sem gefin hefur verið út og fæst án endurgjalds. Samtökin segja útgáfuna vera stórkostlega sóun á pappír og til þess eins gerða að „einhver geti grætt á henni“. Það noti enginn símaskrár lengur.
Nokkur þúsund manns munu hafa hlýtt kalli samtakanna og afþakkað skrána. Útgefandi hennar segir að það séu ekki allir sem leiti að símanúmerum á netinu og hefðbundnar símaskrár séu ennþá notaðar. Það sé bara ungt fólk sem sé alveg hætt að nota slíkar skrár.
Útgefandi símaskrárinnar, Eniro, seldi auglýsingar fyrir hátt í milljarð norskra króna á fyrstu þrem fjórðungum síðasta árs.
Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.