Öldungadeildarþingmaðurinn Barak Obama lýsti í dag formlega yfir því að hann sæktist eftir útnefningu sem forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins í Bandaríkjunum í kosningunum í nóvember á næsta ári.
Hann er fyrsti blökkumaðurinn sem telja má að eigi raunhæfa möguleika á að verða forseti Bandaríkjanna.
Obama nýtur mikilla vinsælda og hefur persónutöfrum hans verið líkt við John F. Kennedy. Faðir hans er blökkumaður en móðir hans hvít.
Hann lýsti yfir framboði sínu síðdegis í dag að íslenskum tíma fyrir framan þinghúsið í höfuðborg Illinois-ríkis, á sama stað og Abraham Lincoln flutti fræga ræðu.
Í ræðu sinni hvatti Obama m.a. til þess, að hernaðaraðgerðum yrði hætt í Írak og sagði að bandarískar hersveitir yrðu að yfirgefa landið fyrir mars á næsta ári. Obama var frá upphafi andvígur því, að Bandaríkjamenn réðust inn í Írak.