Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Robert Gates, gaf í dag lítið fyrir harða gagnrýni Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í garð Bandaríkjanna í gær, og sagði að það væri alveg nóg að hafa háð eitt kalt stríð. Pútín sakaði í gær Bandaríkjamenn um hættulega heimsvaldastefnu og að grafa undan stöðugleika.
Gates er fyrrverandi yfirmaður CIA, leyniþjónjustu Bandaríkjanna. Hann sagði á alþjóðlegri öryggismálaráðstefnu í München að "einum ræðumanna gærdagsins" hefði "næstum tekist að fylla mig eftirsjá eftir einfaldari tímum. Næstum."
"Ég, líkt og ræðumaður gærdagsins, á að baki starfsferil í njósnabransanum. Og ætli gamlir njósnarar séu ekki gjarnir á að vera ómyrkir í máli." En Gates sagðist hafa farið í "endurmenntunarbúðir" sem háskólarektor og komist þar að því að í samskiptum við háskóladeildir gildi sú regla að "koma vel fram" eða "koma sér burt".
Gates sagði að nú á tímum væri heimurinn væri mjög ólíkur því sem var á tímum kalda stríðsins, og mun flóknari. Samstarf við önnur ríki, þar á meðal Rússland, væri nauðsynlegt í baráttunni gegn öfgasinnuðum íslamistum.