Kjörstöðum var lokað klukkan 13 að íslenskum tíma í forsetakosningum í Túrkmenistan, þeim fyrstu þar sem fleiri en einn frambjóðandi er í kjöri. Stjórnvöld segja að kjörsókn hafi verið 98,65%.
Fyrstu tölur verða birtar á morgun eða á þriðjudag og nýr forseti sver embættiseið á miðvikudag, væntanlega Gúrbangúlíj Malíkgúlíjevítsj Berdímúkhammedov, sem nú gegnir forsetaembætti til bráðabirgða.
Boðað var til kosninganna eftir að Saparmúrat Níjazov, fyrrum forseti, lést á síðasta ári. Frambjóðendurnir sex eru allir úr sama stjórnmálaflokknum, þeim eina sem leyfður er í Túrkmenistan.