Einangraði þrjár dætur sínar frá umheiminum í sjö ár

Deila hefur sprottið upp í Austurríki í tengslum við mál er varðar þrjár stúlkur sem voru einangraðar frá umheiminum í sjö ár, en það var móðir þeirra sem lokaði stúlkurnar inni.

Fram kemur í austurrískum fjölmiðlum að eftir að móðirin hafði slitið samvistum við eiginmann sinn hafi hún, að því er frásagnir herma, lokað stúlkurnar inni í myrkri á fjölskylduheimilinu. Hún hafði ávallt dregið fyrir auk þess sem hún skrúfaði allar ljósaperur úr ljósum og lömpum. Þar að auki þurftu stúlkurnar þurftu að búa við afar ógeðfelldar aðstæður, s.s. mannaskít.

Yfirvöld í Pöstlingberg skammt frá Linz komu stúlkunum til bjargar og komu þeim fyrir á heimili í október árið 2005. Þær voru 6, 10 og 13 ára þegar einangrunin hófst að því er segir í fjölmiðlum..

Það var þó ekki fyrr en um liðna helgi sem austurrískir fjölmiðlar greindu fyrst frá málinu.

Málið hefur verið borið saman við mál stúlkunnar Natöschu Kampusch, sem var haldið í gíslingu í kjallara í átta ár í rólegu úthverfi í Austurríki.

Lögmaður tveggja stúlknanna segir velferðarkerfið hafa brugðist, árum saman hafi kerfið litið fram hjá þessu og aðhafst ekkert. Fram kemur að nágrannar konunnar hafi margoft sett sig í samband við félagsmálayfirvöld og lýst áhyggjum sínum vegna velferðar stúlknanna. Þá hafði faðir stúlknanna ítrekað reynt að fá að heimsækja stúlkurnar en það hafi móðirin ekki tekið í mál.

Þá segir lögmaðurinn að félagsmálayfirvöld hafi átt að bregðast við árið 2001 þegar móðirin, sem er lögmaður, fór í meðferð í Linz vegna ofskynjunar og ranghugmynda sem hún þjáðist af. Fram kemur á fréttavef Der Kurier að stúlkurnar hafi þróað með sér sitt eigið tungumál og leikið sér við mýs í soranum heima hjá sér.

Móðirin er nú í varðhaldi og á von á því að verða ákærð fyrir vanrækslu og fyrir að hafa veitt stúlkunum alvarlega líkamlega áverka. Stúlkunum hefur verið veitt sálfræðiaðstoð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert