Pirraður flugfarþegi handtekinn fyrir að hafa látið buxurnar falla

Þýskur ferðamaður var handtekinn á flugvelli í Manila á Filippseyjum fyrir að hafa girt niðrum sig buxurnar, en maðurinn gerði þetta í pirringskasti gagnvart öryggisvörðum á flugvellinum.

Hans Jurgen Oskar von Naguschewski, sem er 66 ára gamall, lét buxurnar falla þegar hann var beðinn um að fara í gegnum gegnumlýsingartækið á vellinum tvisvar.

Í stað þess að fara um borð í flugvélina sem halda átti til Frankfurt í Þýskalandi var hann settur í járn og hann mun mæta fyrir dómara á mánudag.

Verði hann fundinn sekur um ósæmilegt athæfi getur hann átt von á afplána fangelsisdóm í sex mánuði eða jafnvel í sex ár.

„Hann hlýtur að hafa orðið pirraður þegar hann var beðinn um að fara í gegnum gegnumlýsingartækið tvisvar, og hann fór því úr buxunum,“ sagði yfirmaður öryggismála á flugvellinum, Angel Atutubo.

„Hann sagði í raun og veru ekki mikið, ólíkt farþegum frá Filippseyjum sem myndu tala mjög mikið,“ sagði yfirlögregluþjónninn Atilano Morada.

„Hann var augljóslega pirraður og sýndi það með því að fletta sig klæðum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert