Rakarar í landamærabænum Inayat Kalay í Pakistan hafa verið varaðir við því að raka af mönnum skeggið. Viðvörun á dreifibréfi í stíl talibana hefur borist rökurunum en þar segir að það sé móðgun við íslamstrú að skerða skegg manna.
Bærinn er í héraðinu Bajur, nærri landamærunum að Afganistan. „Hver sú rakarastofa sem brýtur gegn sjaría-lögum, rakar eða skerðir skegg manna, fær hér með sína seinustu viðvörun um að hætta þessum and-sjarísku verkum,“ segir í dreifibréfinu. Ellegar verði menn að taka afleiðingunum og hugsanlegum líkamsmeiðingum.
Engin undirritun fylgir textanum en talið að heilagir stríðsmenn íslam, eða mujahedeen, hafi dreift bréfinu, íslamskir uppreisnarmenn. Á þriðja tug rakara mun hafa svarað þessu með því að hengja upp tilkynningar á stofum sínum og biðja viðskiptavini um að óska ekki eftir rakstri.
Menn óttast nú að íbúar á landamærasvæðum Pakistan verði að hlýða boðum og bönnum talibana í síauknum mæli. Talibanastjórnin í Afganistan skipaði körlum í sinni valdatíð að safna skeggi og bannaði þeim að skerða það.