Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands tók í dag undir ásakanir Bandaríkjanna í þá veru að Íran hafi séð uppreisnarsveitum Sjíta í Írak fyrir vopnum sem beitt hefur verið gegn herjum bandamanna þar. Blair sagði að hann hefði lengi haft áhyggjur af því að Teheran sjái uppreisnarsveitunum fyrir vopnum.
„Við erum stöðugt að finna vopn sem við teljum að geti ekki komið annarstaðar frá,” sagði Blair við fréttamenn AFP fréttastofunnar í dag.
Háttsettir embættismenn bandarísku stjórnarinnar sýndu blaðamönnum í Bagdad ýmis vopn og sprengjubrot sem þeir telja að sanni að íranskir aðilar hafi smyglað vopnum yfir landamærin og komið í hendur uppreisnarmanna, þar á meðal jarðsprengjum.