Verðbólgan í Simbabve hefur náð nýjum hæðum en hún mældist 1.593,6% í janúar. Rafmagn, jarðgas og annað eldsneyti í landinu eiga stærstan þátt í þessu, að sögn yfirvalda þar. Verðbólgan hækkaði um 45,4% milli mánaða, desember og janúar, en í desember hafði hún hækkað um 36,3%.
Atvinnuleysi í landinu er nú ríflega 80% og gríðarlegur skortur á matvælum og eldsneyti. Verðhækkanir hafa verið gríðarlegar á neysluvörum, almenningssamgöngum og læknisþjónustu. Læknar á hjúkrunarkonur hafa verið í verkfalli frá því í janúar og sjúkrahús lömuð vegna manneklu. Þá hafa kennarar og fyrirlesarar í háskólum einnig farið í verkfall.
Gagnrýnendur stjórnvalda segja forseta landsins um að kenna hvernig komið er, að hann hafi hrifsað lönd af hvítum athafnamönnum í landbúnaði. Mugabe kennir Vesturlöndum um, að þau hafi unnið gegn stjórnvöldum. Verðbólgan í Simbabve er sú hæsta í heimi. BBC segir frá þessu.