Viagra selt án lyfseðils á Valentínusardaginn

Stinningarlyf.
Stinningarlyf. mbl.is/Brynjar Gauti

Karlar í Manchester á Englandi munu eftir tvo daga geta keypt sér stinningarlyfið Viagra án þess að framvísa lyfseðli, á sjálfan Valentínusardaginn sem helgaður er elskendum. Fyrirtækið Boots ætlar að selja lyfið í þremur apótekum sínum í Manchester.

Karlar frá þrítugu upp í 65 ára aldur sem eiga við ristruflanir að stríða munu þá geta keypt fjórar Viagra-töflur fyrir 50 pund án þess að framvísa lyfseðli. Þeir munu í staðinn ráðfæra sig við lyfjafræðing Boots og blóðþrýstingur mældur, kólestról og sykur í blóði. Í næstu heimsókn munu mennirnir fara á fund læknis sem athugar hvort þeir megi taka Viagra áfram.

Boots heldur því fram að með þessu sé verið að hjálpa körlum sem glíma við þennan vanda. Talsmaður fyrirtækisins segir að aðeins einn af hverjum þeim tíu körlum sem eiga við ristruflanir að stríða hafi leitað sér hjálpar. Boots hefur einnig veitt aukna þjónustu þeim sem þurfa að grennast, eru að missa hárið eða eru með klamidíu. Reuters segir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert