Miðskóli í Kenýa sendi nýlega 20 drengi heim úr skóla á þeirri forsendu að þeir væru ekki umskornir og því lagðir í einelti í skólanum. Þá var tekið fram að drengjunum væri velkomið að koma aftur þegar þeir hefðu verið umskornir og jafnað sig á sárum sínum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Drengir eru umskornir í flestum ættbálkum í Kenýa þar sem litið er á það sem manndómsvígslu og eru óumskornir piltar því almennt álitnir minni menn en umskornir. Stækkandi hópur foreldra velur þó að sniðganga þessa gömlu hefð og hafa foreldrar drengjanna tuttugu brugðist reiðir við brottvísun sona sinna. „Það stóð ekkert um það á umsóknaeyðublöðum skólans að drengir þyrftu að vera umskornir áður en þeir byrjuðu í skólanum,” segir reitt foreldri.
„Drengirnir hafa orðið fyrir mikilli stríðni annarra drengja,” segir Fredrick Kithinji, skólastjóri Kirian-drengjaskólans í Meru í miðhluta Kenýa, og áréttar að ákvörðunin hafi verið tekin með hagsmuni drengjanna að leiðarljósi.