Harðlínu hindúar á Indlandi, sem segjast vera að berjast gegn vestrænum áhrifum, hótuðu í dag að lemja ung indversk pör sem hyggjast skiptast á kortum eða gjöfum á Valentínusardaginn.
Á miðvikudaginn verður Valentínusardagurinn haldinn hátíðlegur víða um heim. Undanfarinn áratug hefur dagurinn átt sífellt meiri vinsældum að fagna á Indlandi, en þar eru hindúar í meirihluta. Í flestum stórborgum má sjá bleika og rauða borða í verslunum. Þá seljast hjartalaga blöðrur, súkkulaði og blóm í unnvörpum.
„Við mælumst til þess að ung pör heimsæki ekki almenningsgarða og veitingastaði eða skipuleggi veislur á Valentínusardaginn. Þeir sem hlusta ekki á okkur verða lamdir,“ segir Ved Prakash Sachchan, talsmaður hinna herskáu hindúasamtaka Bajrang Dal.
„Í nafni Valentínusardagsins er gerð tilraun til þess að koma vestrænum áhrifum inn í indverska menningu og við munum ekki leyfa því að gerast.“
Aðgerðarsinnar úr röðum hindúa hafa víða komið fyrir auglýsingaspjöldum í bænum Lucknow þar sem ungir elskendur eru beðnir um að haldast ekki í hendur.
Það þykir ekki viðeigandi, skv. indverskum hefðum, að pör sýni hvort öðru ástaratlot opinberlega, s.s. að kyssast eða haldast í hendur.
Önnur harðlínusamtök hindúa, Shiv Sena, hefur sagst ætla að taka ljósmyndir af pörum sem sjást sýna hvort öðru ástaratlot, líkt og komið var inn á hér fyrir ofan. Þá hyggjast samtökin afhenda foreldrum parsins myndirnar. Sjálfboðaliðar munu fylgjast með almenningsgörðum, kvikmyndahúsum og verslunarmiðstöðvum til að „hafa gætur með ungu fólki,“ segir Vijay Tiwari, sem er í Shiv Sena.