Krefst rannsóknar á rekstri norsks meðferðarheimilis

Norskur þingmaður vill að gerð verði ítarleg rannsókn á fjármálum Evangeliesenteret, kristilegs meðferðarheimilis þar sem langt leiddir áfengis- og fíkniefnasjúklingar hafa dvalið. Fram hefur komið, að stofnandi heimilisins virðist hafa nýtt fjármuni, sem renna áttu til heimilisins, í eigin þágu.

Inga Marte Torkildsen, talsmaður Sósíalíska vinstriflokksins í heilbrigðismálum, segir við Dagens Næringsliv, að hún muni krefjast opinberrar rannsóknar á rekstri Evangeliesenteret.

Blaðið sagði á laugardag, að meðferðarheimilið væri orðið stærsta einkarekna fyrirtækið á svipi áfengismeðferðar en heimilið hefði notið hárra opinberra styrkja, m.a. fyrir velvilja þingmanna Kristilega þjóðarflokksins, sem áður var forustuflokkur í ríkisstjórn Noregs.

Þá sagði blaðið að Lise Karlsen, stofnandi, forstöðumaður og stjórnarmaður í Evangeliesenteret, og fjölskylda hennar hafi auðgast umtalsvert á rekstrinum.

Thorkildsen segir, að afla verði upplýsinga um hve lengi þetta hafi gengið svona til, hver hafi vitað af því og hvers vegna eftirlit hafi brugðist. Segist hún ætla að taka málið upp í Stórþinginu og gera norsku ríkisendurskoðuninni viðvart.

Dagens Næringsliv segir, að Lise Karlsen og Evangeliesenteret hafi fengið jafnvirði um 3 milljarða íslenskra króna úr opinberum sjóðum frá því starfsemin hófst á níunda áratug síðustu aldar. Á síðustu fjórum árum hefur stofnunin fengið jafnvirði um milljarðs króna. Lise Karlsen er félagi í Kristilega þjóðarflokknum og er í hópi varaþingmanna flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert