Liverpool og Birmingham er ruddalegustu borgir Bretlandseyja ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar. Þar segir að borgarbúar, sem á ensku kallast „Scousers“ og „Brummies“, séu að meðaltali ólíklegri en aðrir landsmenn að standa upp fyrir óléttri konu eða eldri borgara í strætó, opna hurðir fyrir konur eða mæta eitthvert á réttum tíma.
Aftur á móti þykja Glasgow og Sheffield vera þær borgir þar sem borgarbúar eru hvað kurteisastir skv. könnuninni, sem verslunarkeðjan Somerfield stóð að.
Um 99% íbúa Glasgow segjast ávallt bjóða óléttum konum eða eldri borgurum sætið sitt í strætó miðað við 88% íbúa Liverpool og um 90% íbúa Birmingham.
Íbúar Sheffield þykja vera stundvísari en aðrir Bretar, en 88% Sheffield-búa halda því fram að þeir myndu mæta á réttum tíma í kvöldverðarborð eða veislu.
Lundúnabúar þykja þeir óstundvísustu, en um fjórðungur þeirra segir að það sé í góðu lagi að mæta um 15 mínútum of seint.
Riddaramennskan er í fyrirrúmi hjá Skotum en 86% karla í Glasgow og 79% þeirra í Aberdeen segjast opna hurðir fyrir konur miðað við 62% í Birmingham og Liverpool.
Yfir 1.500 manns tóku þátt í könnuninni sem var gerð á milli 22. janúar til 1. febrúar sl.