Nicolas Sarkozy, innanríkisráðherra og frambjóðandi hægrimanna í forsetakosningum í Frakklandi, nýtur stuðnings 54% kjósenda samkvæmt nýrri skoðanakönnun tímaritsins Paris-Match. Helsti andstæðingur Sarkozy, Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista, fengi 46% atkvæða. Um er að ræða könnun á því hvorn frambjóðandann kjósendur myndu velja ef valið stæði á milli þeirra tveggja í seinni umferð kosninganna. Fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi fer fram 22. apríl en ef enginn frambjóðandi fær yfir 50% atkvæða þarf að fara fram önnur umferð þar sem valið er á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem flest atkvæði fá í fyrri umferðinni. Seinni umferðin verður 6. maí.
Í skoðanakönnun Paris-Match í lok janúar þá fékk Sarkozy 52% atkvæða en Royal 48%.
Undanfarna mánuði hefur Sarkozy haft forskot á Royal í skoðanakönnunum.