Nýr forseti tekur við völdum í Túrkmenistan

Frá þingsal þjóðarráðs Túrkmenistans
Frá þingsal þjóðarráðs Túrkmenistans Reuters

Kurbanguly Berdymukhamedov fyrrum aðstoðarforsætisráðherra Túrkemenistan sór í dag embættiseið sem forseti eftir að tilkynnt var að hann hefði sigrað í forsetakosningum sem fram fóru á sunnudag. Í ræðu sinni hét Berdymukhamedov því að fylgja fordæmi forvera síns, Saparmurat Niyazov, en einnig því að hrinda af stað umbótum í landinu.

Tilkynnt var um niðurstöðu kosninganna á fundi þjóðarráðsins, þings Túrkmena í morgun, og sór Berdymukhamedov strax í kjölfarið. Hann mun hafa hlotið 89% atkvæða, en engir alþjóðlegir eftirlitsmenn fylgdust með kosningunum eða talningu atkvæða, og þykir næsta víst að brögð hafi verið höfð í tafli.

Embættistöku Berdymukhamedov hefur þó verið fagnað, en meðal þeirra sem voru viðstaddir embættistökunna voru Mikhaíl Fradkov, forsætirsráðherra Rússlands og Richard Boucher, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna. Fullvissaði nýi forsetinn erlenda embættismenn um að staðið yrði við alla samninga um orkusölu, en landið er mjög auðugt af náttúrugasi.

Þá þykir næsta víst að umbætur verði loks gerðar á stjórnarháttum í landinu, en þeir vöktu oft heimsathygli meðan einvaldurinn Niyazov var við völd. Hann lét meðal annars kalla sig Turkmenbashi, eða föður Túrmena, og nefndi mánuði og vikudaga eftir sér og fjölskyldu sinni. Þá tók hann hart á ökku andófi, einangraði þjóð sína frá umheiminum og minnkaði mjög útgjöld til mennta- og heilbrigðismála.

Þrátt fyrir að Berdymukhamedov hafi í ræðu sinni lofað Niyazov hefur hann þegar boðað endurskipulagningu menntakerfisins, aðgang almennings að netinu og hærri eftirlaun. Þá hefur hann gefið í skyn að öðrum stjórnmálaflokkum en demókrataflokki Niyazovs verði leyft að starfa í landinu og óstaðfestar fregnir herma að tveimur fyrrum ráðherrum, sem fangelsaðir voru fyrir að mótmæla Niyazov, hafi verið sleppt úr fangelsi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert