Paul Watson, stofnandi Sea Shepherd náttúruverndarsamtakanna, sagði í morgun að tvö skip samtakanna muni nú sigla í höfn vegna eldsneytisskorts en skipin hafa verið á hrefnumiðum í Suðurhöfum og reynt að trufla veiðar Japana þar. Annað skip Sea Shepherd sigldi á eitt af japönsku hvalveiðiskipunum á mánudag og hafa aðgerðir samtakanna sætt mikilli alþjóðlegri gagnrýni.
Watson sagði, að skipin tvö, Farley Mowat og Robert Hunter, væru nú á leið til Melbourne í Ástralíu. „Við getum ekki gert meira á þessu stig málsins," sagði Watson við AP fréttastofuna en hann er um borð í Robert Hunter. Hann sagði að skipin tvö myndu snúa aftur á hvalamiðin ef allt gengi að óskum. Svo kann þó að fara að skipin verði kyrrsett í höfn vegna þess að þau eru ekki skráð samkvæmt alþjóðlegum kröfum.