Tveir ungir Svíar létust þegar þeir lentu í snjóflóði í St. Anton í austurrísku Ölpunum í dag. Tveimur tímum síðar lést svo þýskur ferðamaður í öðru snjóflóði í Lec am Arlberg. Svíarnir voru 20 og 21 árs, en þeir voru á snjóbrettum þegar óhappið varð. Einn Svíi slasaðist í fyrra flóðinu. Mennirnir voru allir utan merktrar skíðabrautar.
Tveir ástralskir snjóbrettaiðkendur lentu einnig í snjóflóði á sömu slóðum en björgunarsveitir fundu þá skömmu síðar, þökk sé neyðarsendum sem mennirnir báru á sér. Snjóflóðahætta í Austurríka er nú nokkuð mikil, þrjú stig af fimm mögulegurm. Dagens Nyheter segir frá þessu.