Hefði áætlun bandaríska hersins fyrir innrásina í Írak árið 2003 gengið eftir hefðu um 5.000 bandarískir hermenn verið eftir í Írak í desember árið 2006. Áætlunin gekk hins vegar ekki eftir og nú eru um 132.000 bandarískir hermenn í landinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Þá gerðu yfirmenn Bandaríkjahers ráð fyrir því að eftir innrásina myndi það taka tvo til þrjá mánuði að koma á stöðugleika í landinu og að þeim loknum yrði 18 til 24 mánaða endurreisnartímabil. Þá gerðu þeir ráð fyrir að Bandaríkjaher yrði að alfarið farinn frá landinu 48 mánuðum eftir innrásina.
Greint er frá þessu í trúnaðarskjölum, sem gerð hafa verið opinber, meðal annars er um að ræða PowerPoint glærur sem notaðar voru við kynningu á áætluninni í ágúst árið 2002. Skjölin eru útbúin af Tommy Franks, fyrrum yfirmanni Bandaríkjahers og fleiri áhrifamönnum innan hersins.
Thomas Blanton, yfirmaður skjalasafns NSA rannsóknarstofnunarinnar við George Washington háskólann,, voru áætlanirnar algerlega óraunhæfar varðandi þróunina í Írak eftir að Saddam Hussein, fyrrum Íraksforseti, var hrakinn frá völdum í landinu. „í fyrsta lagi héldu þeir að ný stjórn gæti tekið við um leið og sigurinn væri í höfn, síðan héldu þeir að Írakarnir myndu halda sig til hlés og reynast áreiðanlegir samstarfsaðilar og að lokum að upplausnartímabilið sem fylgdi átökunum myndi einungis vara í nokkra mánuði,” segir í yfirlýsingu Blantons. „Allt voru þetta tálsýnir.”
Rannsóknarstofnunin fékk gögnin afhent í síðasta mánuði eftir að hafa farið fram á að fá þau árið 2004.