Ríki, sem taka þátt í þriggja daga ráðstefnu í Japan um Alþjóðahvalveiðiráðið, saka í uppkasti að lokaskjali andstæðinga hvalveiða um „heimsvaldastefnu." Japanar hóta að ganga úr hvalveiðiráðinu nema hlutir þar breytist til batnaðar.
Japanar buðu öllum aðildarríkjum Alþjóðahvalveiðiráðsins til ráðstefnunnar þar sem átti að ræða leiðir til að bæta starfið innan ráðsins. Niðurstaðan var sú, að um 35 af 72 aðildarríkjum komu til fundarins en þau ríki, sem helst hafa beitt sér gegn hvalveiðum, létu ekki sjá sig.
Í uppkasti að yfirliti um umræður á ráðstefnunni, sem endurskoðað verður fyrir ársfund Alþjóðahvalveiðiráðsins í Anchorage í Alaska í sumar, eru þau ríki, sem andvíg eru hvalveiðum, sökuð um að rægja þau ríki, sem vilja stunda hvalveiðar. „Það er heimsvaldastefna, að halda á lofti siðferðilegum skoðunum, sem ganga gegn rétti okkar til að nýta auðlindir þrátt fyrir vísindalegar niðurstöður," segir m.a. í skjalinu þar sem lýst er umræðum í umræðuhópi.
Joji Morishita, fulltrúi japanskra stjórnvalda á ráðstefnunni, sagði að Japanar muni beita sér fyrir breytingum á starfi hvalveiðiráðsins á næsta ársfundi. Hins vegar muni Japanar ekki bíða endalaust eftir að eitthvað breytist. Hann sagði að japönsk stjórnvöld hefðu undanfarin ár íhugað úrsögn úr ráðinu og ef ekkert jákvætt gerist í Anchorage verði málið tekið til vandlegrar skoðunar.
Í yfirlitinu yfir umræður á ráðstefnunni eru andstæðingar hvalveiðar sakaðir um að þröngva sínum skoðunum upp á lítil eyríki, koma í veg fyrir opinská skoðanaskipti um hvalveiðar og hunsa vísindalegar vísbendingar um að hvalastofnar séu nægilega stórir til að veiða úr.
Þá er hvatt til þess að atkvæðagreiðslur innan Alþjóðahvalveiðiráðsins verði leynilegar. Þá er einnit hvatt til þess að bann verði sett við yfirlýsingum sem jaðri við rógburð.