Mahmoud Abbas, kjörinn leiðtogi Palestínumanna, og Ismail Haniyeh, forsætisráðherra heimastjórnar þeirra, sitja nú a fundi þar sem þeir reyna að bjarga samkomulagi um myndun þjóðstjórnar Hamas og Fatah-hreyfingarinnar en samkomulagið virðist í hættu eftir að Hamas-samtökin settu nokkur ný skilyrði fyrir myndun slíkrar stjórnar í gær. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Nimer Hamad, aðstoðarmaður Abbas, greindi frá því í gær að Hamas-samtökin hefðu sett fram ný skilyrði fyrir myndun þjóðstjórnarinnar og að heimstjórn þeirra myndi ekki afsala sér völdum fyrr en þeim hafi verið mætt. Í kjölfarið aflýsti Abbas ávarpi sem hann ætlaði að flytja í dag en í ávarpinu ætlaði hann að fela Haniyeh umboð til myndun þjóðstjórnar.
Skilyrði Hamas eru þau að þjóðstjórnin virði allar þær ákvarðanir sem heimastjórn Hamas hefur tekið á undanförnum mánuðum, m.a. stofnun öryggissveita samtakanna og skipanir í hin ýmsu embætti. Þá vilja samtökin að Abbas tilkynni þegar í stað hvorn af þeim tveimur mönnum sem samtökin hafa tilnefnt í embætti innanríkisráðherra hann velji og að Ziad Abu Amar, verðandi utanríkisráðherra, verði skilgreindur sem sjálfstæður þingmaður og því ekki dreginn frá þeim ráðherrafjölda sem Hamas-samtökin eiga samkvæmt samkomulaginu að fá í hinni nýju þjóðstjórn.
Hamas samtökin eru einnig sögð andvíg því að Mohammed Dahlan, einn æðsti leiðtogi Fatah og harður andstæðingur Hamas, verði skipaður aðstoðarforsætisráðherra en samkvæmt Mekka-samkomulaginu á Fatah að skipa mann í það embætti. Reyndu samtökin að koma í veg fyrir að Dahlan tæki þátt í samningaviðræðunum í Mekka en Sádi-arabar studdu Abbas í kröfu hans um að Dahlan tæki þátt í þeim.