Fulltrúadeild Bandaríkjaþings ávítti í dag Bandaríkjaforseta, George W. Bush, fyrir áætlun hans um að senda 21.500 hermenn til viðbótar til Íraks. Tillaga þess efnis var samþykkt í þinginu, en 17 repúblikanar af 201 studdu hana. Demókratar eru í meirihluta í deildinni og voru alls 264 þingmenn af 434 fylgjandi því að snupra Bush fyrir hernaðaráætlunina.
Í tillögunni segir að þingið sé ósátt við þá ákvörðun George W. Bush forseta, frá 10. janúar 2007, að senda aukaherlið til Íraks. „Þingið og bandaríska þjóðin munu áfram styðja og vernda hermenn Bandaríkjanna sem þjóna nú eða hafa þjónað landinu í Írak af hugrekki og með sæmd.“