Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, vill að aldur þeirra sem hægt er að dæma til harðra refsinga fyrir byssueign verði lækkaður úr 21 ári í 17. Þá sagði Blair í viðtali við BBC að hann væri að íhuga hvort banna ætti með lögum aðild að gengjum og aðferðir við að vernda þá sem veita yfirvöldum upplýsingar.
Fjórir hafa verið skotnir til bana í mánuðinum í Lundúnum, þar á meðal þrír unglingar. Blair ítrekaði þó að byssuglæpir einskorðuðust við vissa tegund glæpamenningar.
„Þetta er sérstakt vandamál sem tengist glæpamenningu sem hefur með byssur og gengi að gera, en það gerir vandamálið ekki síður alvarlegt.
Fjöldi fólks sem sem særst hefur I Englandi og Wales af völdum skotvopna hefur rúmlega tvöfaldast síðan árið 1998. Morðum tengdum skotvopnum fækkaði hins vegar um þriðjung á tímabilinu 2005 til 2006, úr 78 í 50. Rúmlega 11.000 byssuglæpir voru skráðir í Bretlandi á sama tímabili.