Einn af hverjum sex Evrópumönnum lifir undir almennum fátæktarmörkum, og eru börn sérstaklega berskjölduð gagnvart fátækt að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem greint var frá í dag.
Fram kemur í árlegri skýrsla framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins um „félagslega vernd og félagslega meðtalningu“ að 10% íbúa Evrópu búi á heimilum þar sem engin er með vinnu. Þá er mikið ósamræmi á milli Evrópusambandsríkja hvað varðar lífslíkur íbúanna.
„Nýlegar umbætur sem lúta að því að gera þjóðarkerfin sjálfbærari fjárhagslega og félagslega eru hvetjandi, en það eru enn stórar áskoranir framundan,“ segir Valdimír Spidla, sem fer með félagsmál í framkvæmdastjórn ESB.
„Staðreyndirnar eru augljósar, 16% Evrópumanna eiga í hættu á að lenda í fátæktargildrunni og 10% búa á heimilum þar sem enginn er með vinnu,“ sagði hann varðandi niðurstöður rannsóknarinnar. Hún verður kynnt með formlegum hætti á fundi í Brussel í næsta mánuði.
Samkvæmt niðurstöðunni kemur fram að 13 ára munur er á hæstu og lægstu lífslíkum meðal karla í aðildarríkjum ESB. Þá verja ríkin frá 5% til 11% af vergri þjóðarframleiðslu til heilsugæslu og umsjármála til langs tíma litið.
Árið 2004 lifðu 16% íbúa ESB undir fátækramörkum sem er skilgreint sem 60% af meðaltekjum viðkomandi lands.
Þá voru um 9-10% íbúa í Svíþjóð og Tékklandi undir fátæktarmörkum en í Litháen og Póllandi var hlutfallið 21%.
Þá eru börn líklegri en aðrir að verða fátæktinni að bráð en 19% barna í ESB lifa undir fátæktarmörkum. Það er mjög mismunandi hversu mörg börn búa á heimilum þar sem engin er með vinnu. Í Lúxembourg er hlutfallið 3% en í Bretlandi og Búlgaríu er hlutfallið 14% eða meira.