Bandaríkjaher greindi frá því í dag að níu bandarískir hermenn hafi fallið í Írak í dag. Heimatilbúin sprengja varð þremur bandarískum hermönnum að bana og særði tvo suðvestur af Bagdad í dag þar sem hermennirnir voru við eftirlit.
Þá létust tveir hermenn og 17 særðust þegar sjálfsvígssprengjumaður gerði árás á bandaríska eftirlitsstöð norður af Bagdad í dag, en árásarmaðurinn ók ökutæki sem var fyllt af sprengiefni.
Bandaríkjaher greindi jafnframt frá því að fjórir hermenn hafi látið lífið í hernaðaraðgerðum sl. þrjá daga í Anbar-héraðinu í vesturhluta Íraks.
Alls hafa því 3.138 bandarískir hermenn fallið í Írak frá því Bandaríkin gerði innrás í landið í mars 2003, samkvæmt tölum AFP-fréttastofunnar sem byggir á tölum frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu.