Hundruð samkynhneigðra para njóta nú sömu lagalegra réttinda og hjón í New Jersey-ríki í Bandaríkjunum, en í dag tóku í gildi ný lög sem gera New Jersey þriðja bandaríska ríkið sem býður samkynhneigðum pörum að staðfesta samvist sína.
Staðfest samvist býður upp á sömu réttindi og hjónaband en nafngiftin er hinsvegar ekki sú sama. Þau samkynhneigðu pör sem hafa nú þegar staðfest samvist sína eða gift sig í öðrum ríkjum eða löndum, og búa í New Jersey, njóta nú sjálfkrafa þessara réttinda.
Þrátt fyrir þetta viðurkennir Bandaríkjastjórn og 45 önnur ríki ekki samvistir af þessum toga. Massachusetts er hinsvegar eina bandaríska ríkið þar sem samkynhneigðir mega gifta sig, en í Kaliforníu býðst samkynhneigðum það sem kallast á ensku „domestic partnership“.
Nú mega samkynhneigð pör í New Jersey ættleiða börn, koma börnum sínum á dagheimili, heimsækja maka sinn sem liggur á sjúkrahúsi og taka læknisfræðilegar ákvarðanir í sameiningu. Þá eiga samkynhneigð pör rétt á því að vitna ekki gegn maka sínum fyrir ríkisdómstóli.