New Jersey þriðja bandaríska ríkið sem leyfir samkynhneigðum að staðfesta samvist sína

Samkynhneigð pör njóta nú sömu lagalegra réttinda og gagnkynhneigð hjón …
Samkynhneigð pör njóta nú sömu lagalegra réttinda og gagnkynhneigð hjón í New Jersey í Bandaríkjunum. Reuters

Hundruð sam­kyn­hneigðra para njóta nú sömu laga­legra rétt­inda og hjón í New Jers­ey-ríki í Banda­ríkj­un­um, en í dag tóku í gildi ný lög sem gera New Jers­ey þriðja banda­ríska ríkið sem býður sam­kyn­hneigðum pör­um að staðfesta sam­vist sína.

Staðfest sam­vist býður upp á sömu rétt­indi og hjóna­band en nafn­gift­in er hins­veg­ar ekki sú sama. Þau sam­kyn­hneigðu pör sem hafa nú þegar staðfest sam­vist sína eða gift sig í öðrum ríkj­um eða lönd­um, og búa í New Jers­ey, njóta nú sjálf­krafa þess­ara rétt­inda.

Þrátt fyr­ir þetta viður­kenn­ir Banda­ríkja­stjórn og 45 önn­ur ríki ekki sam­vist­ir af þess­um toga. Massachusetts er hins­veg­ar eina banda­ríska ríkið þar sem sam­kyn­hneigðir mega gifta sig, en í Kali­forn­íu býðst sam­kyn­hneigðum það sem kall­ast á ensku „domestic partners­hip“.

Nú mega sam­kyn­hneigð pör í New Jers­ey ætt­leiða börn, koma börn­um sín­um á dag­heim­ili, heim­sækja maka sinn sem ligg­ur á sjúkra­húsi og taka lækn­is­fræðileg­ar ákv­arðanir í sam­ein­ingu. Þá eiga sam­kyn­hneigð pör rétt á því að vitna ekki gegn maka sín­um fyr­ir rík­is­dóm­stóli.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert