Sprengjumaður hengdur fyrir allra augum í Íran

Zehi nokkrum andartökum áður en hann var tekinn af lífi.
Zehi nokkrum andartökum áður en hann var tekinn af lífi. AP

Írönsk yfirvöld hafa hengt mann opinberlega vegna sprengjuárásar sem varð 11 liðsmönnum úr íranska Byltingarverðinum að bana í síðustu viku. Nasrollah Shanbe Zehi var hengdur fyrir augum almennings á sama stað og árásin var gerð í borginni Zahedan í suðausturhluta landsins.

Sýnt var í sjónvarpi þegar Zehi viðurkenndi að hafa framið verknaðinn sl. miðvikudag og það var dómstóll í Zahedan sem dæmdi í máli hans, segir á fréttavef BBC.

Árásin átti sér stað þegar bifreið, sem var full af sprengiefni, stöðvaði við hlið rútu sem flutti hermenn til og frá vinnu. Uppreisnarhópurinn Jundallah lýsti verknaðinum á hendur sér.

Hópur fólks hrópaði „Deyi Ameríka“ og „Deyi Ísrael“ á meðan það fylgdist með aftökunni. Sem fyrr segir var Zehi tekinn af lífi á sama stað og árásin var gerð, en að sögn fréttaskýrenda er algengt að glæpamenn séu líflátnir á þeim stöðum þar sem þeir frömdu glæpinn.

Aftakan var tekin upp á myndband og sýnd í íranska ríkissjónvarpinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert