Tveir þriðju kjósenda í Bandaríkjunum telja að Bandaríkin séu reiðubúin til þess að eignast fyrsta kvenforsetann. Á sama tíma njóta Hollary Clinton, sem tekur þátt í forvali demókrata, John McCain og Rudolph Giuliani, sem sækjast eftir tilnefningu repúblikana, svipaðs fylgis meðal kjósenda. Ekki virðist sem þeim sem tóku þátt hafi verið gefinn kostur á að velja á milli fleiri frambjóðenda en þeirra.
Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem unnin var af Siena rannsóknarstofnuninni fyrir dagblöð í eigu Hearst og birt var í dag.
Samkvæmt könnuninni telja flestir kjósenda að kona gæti betur ráðið við mál innanlands. Málefni eins og heilbrigðismál, almannatryggingakerfið, orkumál og viðbrögð við náttúruhamförum. En því er öfugt farið þegar að kemur að málefnum eins og varnarmálum.
Alls tóku 1.120 manns þátt í könnuninni sem var gerð í gegnum síma dagana 5.-9. febrúar.
Samkvæmt skoðanakönnuninni telja 66% að Bandaríkin séu reiðubúin til þess að eignast kvenforseta, sem er aukning um 2% frá síðustu könnun. Hins vegar telja 27% að það sé ekki rétti tíminn núna og einhverjir þeirra segja að það komi aldrei til greina að kona verði forseti Bandaríkjanna.
Ef gengið væri til kosninga nú segjast 45% ætla að kjósa Clinton, En 44% McCain ef hann væri frambjóðandi repúblikana en ef Giuliani færi fram þá myndu 45% styðja hann á meðan 44% styðja Clinton.