A.m.k. fjórtán hafa látist í árásum í Írak í morgun og virðist ekkert lát á óöldinni þrátt fyrir umfangsmiklar öryggisaðgerðir Bandaríkjamanna og yfirvalda sem hófust í síðustu viku.
Sex létust og a.m.k. 105 særðust þegar tankbíll sem flutti klórgas sprakk fyrir utan veitingastað í eigu sjíta í bænum Taji, norður af Bagdad. Segja yfirvöld allt útlit fyrir að um viljaverk hafi verið að ræða.
Þá létust þrír og 12 særðust þegar bílasprengja sprakk við bensínstöð í Saydia, í vesturhluta Bagdad. Fimm til viðbótar létust svo í annarri bílasprengjuárás við al-Rasheed matarmarkaðinn í sama hverfi, þar særðust 19 manns.