Valdatímabil breska Verkamannaflokksins er að líða undir lok ef marka má niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem birt var í Bretlandi í morgun. Samkvæmt könnuninni styðja nú 42% Breta Íhaldsflokkinn og hefur hann ekki mælst með meira fylgi í kosningum eða skoðanakönnunum frá árinu 1992, samkvæmt því sem fram kemur á fréttavef The Guardian.
Sérstaklega er fjallað um það í umfjöllun blaðsins að könnunin sé gerð skömmu eftir að David Cameron, formaður Íhaldsflokksins, staðfesti að hann hefði fiktað við fíkniefni á sínum yngri árum en því hafði verið spáð að viðurkenning hans á því myndi draga a.m.k. tímabundið úr fylgi flokksins.
Niðurstöður könnunarinnar þykja töluvert áfall fyrir Gordon Brown, fjármálaráðherra Verkamannafloksins og væntanlegan arftaka Tony Blair formanns flokksins, en samkvæmt könnuninni nýtur Verkamannaflokkurinn nú einungis fylgis 29% kjósenda. Er það samsvarandi við fylgi flokksins árið 1983 og þremur prósentum minna fylgi en samkvæmt samsvarandi könnun sem framkvæmd var fyrir mánuði.
Þúsund manns tóku þátt í könnuninni sem framkvæmd var í gegn um síma