Hamas vonar að afstaða Bandaríkjanna mýkist gagnvart myndun samsteypustjórnar

Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas, og Mahmoud Abbas, leiðtogi Fatah, komust …
Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas, og Mahmoud Abbas, leiðtogi Fatah, komust að samkomulagi fyrr í þessum mánuði varðandi myndun samsteypustjórnar í Palestínu. Reuters

Hamas-samtökin sögðu í dag að þau beri enn þá von í brjósti að bandarísk stjórnvöld muni mýkja afstöðu sína gagnvart palestínskri samsteypustjórn, þrátt fyrir þær yfirlýsingar Ísraela að Bandaríkin og Ísrael muni sniðganga stjórnina þar til hún muni mæta vissum skilyrðum.

„Afstaða Bandaríkjamanna virðist vera komin í ójafnvægi, þeir hafa einu sinni hótað að sniðganga okkur og einu sinni hafa þeir sagt ætla að bíða og sjá,“ sagði Ghazi Hamad, talsmaður Hamas-stjórnarinnar.

„Kannski verður afstaða þeirra ljósari þegar ríkisstjórnin verður tilkynnt og við vonum að afstaðan verði rökrænni og sveigjanlegri,“ sagði hann í kjölfar heimsóknar Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, til Ísraels.

Í gær átti Rice fund með Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, og Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínu. Fatah-hreyfing Abbas undirritaði samkomulag um valddreifingu milli Fatah og Hamas í Saudi-Arabíu fyrr í þessum mánuði.

Olmert sagði eftir viðræðurnar að Ísrael og Bandaríkin hafi samþykkt að sniðganga ríkisstjórn Palestínu, sem enn hefur ekki verið mynduð, þangað til hún snúi baki við ofbeldisverk, viðurkenni Ísrael og samþykki friðarsamninga bráðabirgðastjórnarinnar sem nú þegar liggja fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert