McCain segir Rumsfeld versta varnarmálaráðherra sögunnar

Donald Rumsfeld , fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, skömmu áður en hann …
Donald Rumsfeld , fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, skömmu áður en hann lét af embætti. Reuters

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain, sem sækist eftir að verða forsetaefni bandaríska Repúblíkanaflokksins árið 2008, hefur lýst því yfir að Donald Rumsfeld, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, muni verða minnst sem versta varnarmálaráðherra í sögu landsins. Þá segir hann Bandaríkjastjórn hafa klúðrað stríðsrekstrinum í Írak. Ummæli McCain koma mjög á óvart þar sem hann hefur fram til þessa verið einn fárra áhrifamanna innan Repúblíkanaflokksins sem ekki hafa reynt að firra sig ábyrgð í Íraksmálinu. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Þá sagði McCain þegar Rumsfeld sagði af sér embætti í nóvember á síðasta ári að hann ætti skilið þakklæti og virðingu. McCain, sem sjálfur barðist í Víetnam, naut á þeim tíma mikils stuðnings sem forsetaefni Repúblíkana en síðan hefur fylgi hans minnkað mikið samkvæmt skoðanakönnunum og er það fyrst og fremst rakið til stuðnings hans við stefnu Bandaríkjastjórnar í Írak.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert